Sérkennsla

Sérkennsla á Heklukoti byggir á traustum fræðilegum grunni snemmtækrar íhlutunar, þar sem leitast er við að vinna skipulega, vanda vinnubrögð bæði í kennslu, samskiptum við foreldra, samstarfsfólk og aðra fagaðila. Barnið er þannig í brennidepli og leitast er við að mæta því á þeim stað sem það er. Þá er hægt að efla færni barnsins bæði einstaklingslega og í hópastarfi. Allar ákvarðanir er varða barnið eru teknar í samráði við foreldra og er leitast við að eiga góð samskipti á milli þeirra aðila sem eiga í hlut. Snemmtæk íhlutun felur einkum í sér aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr frávikum í þroska og/eða hegðun barns og í öðru lagi að aðstoða fjölskyldur við að takast á við frávik í þroska og/eða hegðun barns. Snemmtæk íhlutun er því í senn fyrirbyggjandi og eflandi fyrir bæði einstaklinginn með frávikið sem og foreldra hans. Snemmtæk íhlutun heppnast best þegar vel tekst til í samstarfi milli foreldra og kennara sem að barninu koma.

Á Heklukoti fara öll börn í gegnum TRAS skimun. Barnið er tveggja ára og þriggja mánaða þegar fyrsta TRAS skimun fer fram og er skimað á sex mánaða fresti til fimm ára aldurs. Á síðasta ári barns í leikskólanum er lögð fyrir athugun á hljóð- og málvitund sem heitir Hljóm-2.

Sérfræðiþjónusta

Heklukot starfar í góðri samvinnu við Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.

Sérfræðingar skólaþjónustunnar sinna greiningum á börnum í leik- og grunnskólum, m.a. almennu þroskamati, mati á hegðun og líðan, málþroskamati og námslegum greiningum s.s. lestrar- og stærðfræðigreiningum. Þeir veita ráðgjöf til foreldra, kennara og annars starfsfólks skóla, m.a. almenna kennsluráðgjöf, ráðgjöf vegna skipulags náms og kennslu einstakra nemenda og uppeldisráðgjöf. Þeir sinna auk þess eftirfylgd með nemendum í kjölfar greininga og sitja í teymum vegna barna með fatlanir, námserfiðleika og aðrar sérþarfir. Að auki er veitt ráðgjöf til sveitarstjórna og fræðslunefnda um ýmislegt sem lýtur að skólamálum. Sérfræðiþjónustan kemur að endurmenntun og fræðslu fyrir starfsfólk skólanna, bæði í formi styttri fræðslufunda og einnig umfangsmeiri námskeiða.