Gildi leikskólans og hugmyndafræðilegar áherslur

Leikskólinn Heklukot starfar eftir Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011.

Megináherslur í okkar starfi eru:

Skólar á grænni grein

Á Íslandi eru í gangi mörg verkefni sem lúta að umhverfismennt en eitt þeirra er Skólar á grænni grein og er það alþjóðlegt verkefni. Verkefnið hér á landi er í umsjón Landverndar með stuðningi stjórnvalda og er því ætlað að styðja við og styrkja umhverfismennt í grunn- og leikskólum. Verkefnið er ekki einungis tengt virðingu fyrir náttúru heldur einnig fjölbreytileika mannlífs, lýðheilsu og jafnrétti. Markmið Skóla á grænni grein fela því í sér sambærilegar áherslur og í Aðalnámskrá leikskóla (2011).

Heilsustefnan

Markmið heilsustefnunnar er að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í heilsuleikskóla er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu.

Markmið heilsustefnunnar er að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð næring, góð hreyfing og listsköpun skal ávallt vera aðalsmerki þeirra.

Snemmtæk íhlutun handbók

Snemmtæk íhlutun er þegar börnum með málþroskafrávik er veitt sérstök örvun (Marta Eydal o.fl., 2019). Íhlutun sem byrjar snemma og stendur yfir í langan tíma hefur meiri áhrif en sú sem byrjar seinna og stendur skemur yfir, en ákefð íhlutunar skiptir miklu máli (Fricke o.fl., 2013). Snemmtæk íhlutun í málörvun felst í því að greina málþroskafrávik snemma; skilgreina í hverju vandinn er fólginn með því að fá góðar bakgrunnsupplýsingar varðandi barnið og skoða vel hvaða málþætti þarf að vinna með. Jafnframt þarf að veita ráðgjöf og markvissa þjálfun til að ná árangri. Þegar vinna skal markvisst með málþroska barna þarf að flokka og skilgreina málörvunarefni leikskólans út frá því hvaða málþætti er verið að vinna með hverju sinni. Í framhaldi er hægt að mæta betur mismunandi þörfum barna í málörvun, einnig er mikilvægt að skrá og skilgreina hvað er gert í málörvun, meta árangur og senda viðeigandi málörvunarverkefni heim með þeim börnum sem þess þurfa. Slík vinnubrögð stuðla að aukinni samvinnu á milli starfsfólks leikskóla og foreldra.